Sagan

Árið 1966 byrjaði núverandi eigandi Suðurverks, Dofri Eysteinsson, sinn feril sem verktaki. Dofri er fæddur og uppalinn við gömlu Markarfljótsbrúna. Faðir Dofra var vegaverkstjóri. Dofri keypti sína fyrstu gröfu sem hann notaði til að byrja með við að grafa fyrir vatnslögn til Vestmannaeyja.


Ári síðar eða í maí 1967 var Suðurverk sf stofnað af Dofra og Sveini Þorlákssyni. Þeir byrjuðu að kaupa sér D6 jarðýtu sem fór í vinnu til Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu.


1968 keyptu þeir félagar sér Hymac vökvagröfu sem voru að ryðja sér til rúms. Þessi grafa var mikið notuð í að grafa framræsluskurði hjá bændum til að byrja með. Eins og Dofri segir „kátir dagar koma og fara", því upp frá þessu stækkaði fyrirtækið mjög ört.


1970 keypti Suðurverk D7 jarðýtu. Þessi vél var lítið notuð til að byrja með þar sem smá mótbyr kom í seglin. En árið eftir var farið í ýmsar framkvæmdir og var þessi jarðýta leigð til Vegagerðarinnar í uppbyggingu á vegaframkvæmdum á Skeiðarársandi.


Árið 1972 keypti Suðurverk aðra Hymac gröfu sem einnig var notuð í framræsluskurði hjá bændum. Á þessum tíma styrkti ríkið gerð þessara skurða og var sem allir bændur vildu fá þessa skurði gerða á sínum landareignum.


Árið 1973 í gosinu í Eyjum leigði Suðurverk bæði traktorsgröfu og beltagröfu við hreinsunarstarf. Jafnframt þessum framkvæmdum kom verkefni í Sigölduvirkjun og ýmis verkefni tengd aðalverktakanum að þeirri virkjun.


Næstu árin var Vegagerðin og verktakar sem unnu fyrir þá helstu viðskiptavinir Suðurverks með leigu á tækjum.


Árið 1983 bauð Suðurverk í framkvæmdir Landsvirkjunnar við fyrsta áfanga Kvíslaveitu, það er byggingu á Svartárstíflu, sem veita átti Svartá til Þórisvatns. Ári síðar komu fleiri verkefni hjá Landsvirkjun við síðari áfanga Kvíslaveitu. Þá var einnig verið að byggja Sultartangastíflu. Hagvirki var með það verk og leigði Suðurverk þeim tæki til framkvæmdanna.


Upp frá þessu komu fleiri verk fyrir ýmsa aðila.


Árið 1985 skiptist Suðurverk upp þar sem eigendur ákváðu að fara í sitt hvora áttina. Dofri hélt áfram með Suðurverk sem breyttist úr því að vera sf í hf, en Sveinn ákvað að draga sig út úr verktakabransanum. Á þessum tíma var komin einhver niðursveifla í framkvæmdir. Þetta sama ár fékk hið nýja Suðurverk fyrsta verkefni sitt en það var að grafa fyrir Kringlunni. Fleiri verkefni í Reykjavík fylgdu í kjölfarið. Lítið var um virkjanaframkvæmdir á þessum tíma en hins vegar fóru vegaframkvæmdir að koma inn. Á þessu tíma voru 15-20 starfsmenn hjá fyrirtækinu.


Árið 1996 kom stórt verkefni, það er að veita efsta hluta Þjórsár inn í Þórisvatn (síðasti áfangi Kvíslaveitu). Þegar þetta verkefni var að klárast fékk Suðurverk það verkefni að grafa 7 km langan frárennslisskurð Sultartangavirkjunar. Þetta verkefni þótti stórt. Sprengja þurfti um 7 milljón rúmmetra í þessum skurði.


Upp frá þessu komu ýmis verkefni fyrir Vegagerðina eins og til dæmis vegur yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi, vegur yfir Þverárfjall á Skaga, Tjörnesvegur og stækkun á brimvarnargarðinum við Örfirisey svo eitthvað sé nefnt.


Árið 2003 kom stórt verkefni tengt Kárahnjúkum. Til þessa verks þurfti Suðurverk að fjárfesta í stórum tækjum sem hentuðu þessum framkvæmdum. Í kjölfarið fékk Suðurverk verkefni hjá Bechtel við framkvæmdir við álverið í Reyðarfirði. Tækin sem Suðurverk var búið að fjárfesta í varðandi Kárahnjúkavirkjun hentuðu mjög vel fyrir þetta verkefni. Þessar framkvæmdir við álverið byrjuðu tiltölulega smátt en undu töluvert upp á sig og þegar upp var staðið var það rúmlega tvöfalt stærra en hlutur Suðurverks við Kárahnjúka hvað efnisvinnslu og veltu varðaði og um það bil fjórfalt stærra en upphaflega var gert ráð fyrir. Verkefni fyrir Alcoa og síðar hafnargerð á Reyðarfirði komu í framhaldinu.


Eftir að þessum framkvæmdum lauk komu ýmis verkefni í vegagerð þar til Landeyjahöfn kom inn í myndina.


Þar sem þetta voru heimalendur eiganda Suðurverks þá voru menn þar á bæ mjög harðir í því að fá það verkefni. Suðurverk var með lægsta tilboðið og uppfyllti allar kröfur sem verkkaupi gerði til verktaka og fékk því verkið.


Ólíkt flestum öðrum verktökum þá er yfirbygging Suðurverks frekar lítil en samt nógu stór til að þjóna þeim tilgangi sem fyritækið stendur fyrir. Meiri áhersla er lögð á að notast við bestu mögulegu tæki og búnað sem nauðsynlegur er til að skila góðri afurð til verkkaupa eins og raunin hefur verið.